Hlaupið gegn eiturlyfjum

Alice Vennik og Paul Rood
Alice Vennik og Paul Rood Árvakur/Ómar

Hollensku hlaupararnir Alice Vennik og Paul Rood eru hér á landi og hyggjast hlaupa frá Ráðhúsinu í Reykjavík til Keflavíkur til að vekja athygli á eiturlyfjavanda ungs fólks. Rood segir eiturlyfjaneyslu ungmenna vera að aukast í Evrópu, ekki síst á lyfseðilsskyldum lyfjum á borð við rítalín.

Vennik og Rood komu hingað til lands fyrir tveimur dögum og verða hér fram á sunnudag. Vegalengdin sem þau ætla að hlaupa er um sextíu kílómetrar, en þau hyggjast hlaupa leiðina í áföngum á næstu dögum.

Á meðan á dvöl þeirra stendur munu þau ræða við fólk um eiturlyf, en Rood segir ekki ætlunin að predika. „Það þýðir ekki að vara bara við skaðsemi eiturlyfjaneyslu, ungmenni hlusta ekki endilega á slíkt. Mikilvægast er að veita sem mestar upplýsingar, svo þau geti sjálf valið sína leið."

Áður hafa Rood og Vennik tekið þátt í hlaupum víðsvegar um Evrópu ásamt stærri hópi fólks, m.a. í Hollandi, Belgíu og Englandi. Þá hyggjast þau koma hingað til lands næsta sumar og hlaupa aftur.

Alice Vennik er tvítug, en hún ánetjaðist eiturlyfjum aðeins níu ára gömul. Hún hefur verið laus við lyfin í þrjú ár, og hefur unnið að því í Hollandi að vekja athygli á eiturlyfjavanda ungs fólks og hefur þar komið fram í sjónvarpi og skrifað greinar í blöð.

Rood segir neyslu ungmenna á eiturlyfjum stefna í óefni og að það geti gerst að eftir tuttugu ár verði stór hópur vinnandi fólks ánetjaður lyfjum. Sérstaklega ræðir Rood um lyfseðilskyld lyf á borð við rítalín, og segir það ganga kaupum og sölum í evrópskum skólum. Þá bendir hann á að óvíða sé meira magni af rítalíni ávísað hlutfallslega en hér á landi.

Rood og Vennik sóttu meðferð hjá bandarísku samtökunum Narconon, en einn stofnenda þeirra var rithöfundurinn L. Ron Hubbard, stofnandi vísindakirkjunnar. Rood segir þó samtökin ekki trúarleg, og að ekki standi til að stunda trúboð hér á landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert