Dýpkunarskipið Pétur mikli, sem er að vinna við dýpkunarframkvæmdir í Ólafsvíkurhöfn, tók niðri í morgun austan við höfnina er skipið var að fara með grjótfarm og losa hann nálægt austurkantinum.
Að sögn Péturs Bogasonar hafnarvarðar í Ólafsvík, hefur skipstjórinn á Pétri mikla misreiknað dýpið, en Pétur mikli tók niðri á á stað þar sem dýpið er einungis einn metri. Situr skipið nú á grjóthrúgu. Dýpkunarkrani reyndi að losa Pétur mikla í morgun en tókst það ekki.
„Það er flóð um klukkan 19 í kvöld og þá verður reynt að losa skipið," sagði Pétur Bogason í samtali við fréttaritara Morgunblaðsins í morgun.