Sjálfstæðismenn harðlega gagnrýndir á Alþingi

mbl.is/GSH

Hörð gagnrýni kom fram á framgöngu Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarmálum á Alþingi í dag.

Álfheiður Ingadóttir og Kolbrún Halldórsdóttir, þingmenn Vinstri grænna sökuðu Sjálfstæðisflokkinn um valdgræði og hroka. Álfheiður sagði  flokkinn hafa orðið uppvísan að því að vera reiðubúinn til að selja stefnu sína hvort sem væri hjá borg eða ríki í útrásarmálum orkufyrirtækja. Kolbrún sagði hann hafa sýnt sitt rétta andlit í borgarpólitíkinni í Reykjavík á undanförnum dögum þar sem þeir hafi beitt blekkingum og lygum til að koma höggi á andstæðinga sína.

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, tók í sama streng og sagði fulltrúa Sjálfstæðisflokksins hafa orðið uppvísa að blekkingum bæði er þáverandi borgarstjóri hélt því fram að hann hefði umboð samstarfsmanna sinna til að ganga frá samningum í REI málinu og er fulltrúar hans töldu Ólafi F. Magnússyni trú um að Vinstri grænir hefðu verið nálægt því að ganga til meirihlutasamstarfs við þá í borginni.

Árni M Mathiesen, fjármálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins,  sagði umræðurnar greinilega eiga sér rætur í atburðum sem átt hafi sér stað á öðrum vettvangi en á þinginu. Þá kvaðst hann fyrirgefa umræddum þingmönnum stóru orðin þar sem hann skildi að þeir væru sárir vegna atburðarásarinnar í borgarmálunum á undanförnum dögum. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert