Þungt er yfir starfsmönnum í Ráðhúsinu og stofnunum borgarinnar og loft lævi blandið eins og í pólitíkinni. Borgarstarfsmenn eru orðnir langþreyttir á stjórnmálaástandinu, enda hefur það oft bein áhrif á starf þeirra og stöðu. Áætlanir og stefnumótunarskýrslur eru unnar fyrir ruslaföturnar og óvissa ríkir víða í þjónustu við borgarbúa.
Heilu ársverkin í uppnámi
Svið borgarinnar vinna að starfsáætlunum í samvinnu við kjörna fulltrúa í nefndum og ráðum mánuðum saman. Í tengslum við starfsáætlun er unnin fjárhagsáætlun. Þegar nýr meirihluti tekur við þarf að vinna áætlanir aftur í samræmi við nýjar pólitískar áherslur.
„Fólk vinnur allt haustið og sumarið líka, í að leggja línur eftir markmiðum meirihlutans,“ segir embættismaður, sem treystir sér ekki í viðtal undir nafni. Verða að taka hverju sem er Hann segir að fyrir rúmum hundrað dögum hafi stefnumótun og áætlanagerð fyrir nýbyrjað ár verið komin vel á veg, hana hafi þurft að taka upp að hluta og nú gerist það aftur.
„Það er sárt að sjá mikla vinnu spillast í valdabaráttu stjórnmálamanna,“ segir einn viðmælandi. Annar segir: „Embættismenn verða að taka hverju sem er og starfa eftir pólitískum markmiðum meirihlutans hverju sinni, en þeir eru mannlegir eins og aðrir.“