Töldu Margréti með

Margrét Sverrisdóttir.
Margrét Sverrisdóttir. mbl.is/Kristinn

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vissu ekki að Margréti Sverrisdóttur hugnaðist ekki að starfa með nýjum meirihluta fyrr en innan við klukkustund áður en myndun hans var tilkynnt, samkvæmt heimildum 24 stunda.

Margrét Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi Flistans, segir Ólaf F. Magnússon, oddvita Flistans, ekki hafa sagt sér frá viðræðunum fyrr en klukkan hálffjögur síðdegis á mánudag.

Neitaði viðræðum fram eftir degi

Síðdegis í gær var síðan send út yfirlýsing þess efnis að Margrét og Guðrún Ásmundsdóttir, sem sat í þriðja sæti F-listans í síðustu borgarstjórnarkosningum, ætli sér að starfa í borgarstjórnarflokki minnihluta borgarstjórnar með fulltrúum Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks. Margrét segir Ólaf hafa neitað því fram eftir degi á mánudag að viðræður stæðu yfir.

„Eftir að fjölmiðlar sögðu að hann hefði verið að hitta Vilhjálm um liðna helgi þá spurði ég hann tvívegis hvort hann það væri satt. Hann svaraði því neitandi og vildi meina að hann væri ekki í neinum viðræðum. Síðan svarar hann ekki í símann fyrr en klukkan hálffjögur. Hann spyr mig þá um mína afstöðu ef til þessa samstarfs kæmi. Ég sagði honum að hvorki ég né Guðrún fylgdi honum að málum. En hann gerði þetta samt.“

Án formanna fagráða

Samkvæmt samþykktum um stjórn Reykjavíkurborgar geta einungis borgarfulltrúar eða varaborgarfulltrúar verið formenn fagráða borgarinnar, sem eru níu talsins. Ólafur segir það ekki liggja fyrir hvernig hann muni leysa úr þeirri stöðu í ljósi yfirlýsingar Margrétar og Guðrúnar í gær. „Ég hef engin svör á reiðum höndum við þessu. Það verður óneitanlega óþægilegt. Ég held að þetta sé alveg skýrt í samþykktunum þó sumir haldi að það séu einhverjar undantekningar frá þeim ef fólk segi sig frá trúnaðarstörfum fyrir það framboð sem það starfaði fyrir.“

Dagur B. Eggertsson, fráfarandi borgarstjóri, segir Ólaf vissulega geta setið sem formaður nefndanna sjálfur, en að það yrði í hæsta máta óvenjulegt. Margrét og Guðrún hafatekið upp formlegt samstarf við minnihlutann og munu þær setjast í nefndir á hans vegum. Sú niðurstaða að bæði annar og þriðji fulltrúi F-lista yrðu í stjórnarandstöðu virðist hafa komið flestum fulltrúum Sjálfstæðisflokksins á óvart.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert