Um 80% ánægð með Íbúðalánasjóð

mbl.is

Um og yfir 80% Íslendinga er jákvæður gagnvart Íbúðalánasjóði, samkvæmt viðhorfskönnunum sem Capacent Gallup hefur unnið fyrir sjóðinn, bæði meðal almennings og fasteignakaupenda.

 Í fréttatilkynningu kemur fram að í báðum skoðanakönnunum kemur fram mjög skýr vilji fólks fyrir því að Íbúðalánasjóður starfi áfram í óbreyttri mynd og hefur hlutfallið aldrei áður verið svo hátt. Meðal fasteignakaupenda vilja 87,4% óbreytta starfsemi en það hlutfall var 82,8 % í desember 2006. Í almennu könnuninni var þetta hlutfall 85,5% í desember 2007 á móti 74,2% í desember 2006.

Íbúðalánasjóður á að sjá um húsnæðislán – einn eða ásamt bönkunum að mati 79,5% fasteignakaupenda, en 75,4 % þeirra sem svöruðu almennu könnuninni.

Stuðningur fasteignakaupenda við íbúðalánastarfsemi banka og sparisjóða hefur hrapað milli kannanna og einnig minnkað meðal þeirra sem svöruðu almennu könnuninni. Í desember 2006 vildu 60,2% fasteignakaupenda að bankarnir kæmu að íbúðalánum einir eða ásamt Íbúðalánasjóði en í desember 2007 er þetta hlutfall komið niður í 45,5%. Hins vegar vildu 49,8% almennings að bankarnir kæmu að íbúðalánum fyrir ári síðan, en það hlutfall lækkar í 46,4% í desember. Afstaða beggja hópanna mælist nú því sambærileg.

Þá segjast 42,6% þeirra sem telja sig munu festa kaup á íbúðarhúsnæði á næstu misserum gera ráð fyrir að taka íbúðalán hjá Íbúðalánasjóði. Athygli vekur hins vegar að sama hlutfall telur sig muni taka íbúðalán í erlendri mynt. Þá kemur fram að 38,7% þeirra sem endurfjármögnuðu íbúðalán sín á árinu 2007 tóku slík lán í erlendri mynt samanborið við 9,7% í könnuninni í desember 2006.

Niðurstöður skoðanakannanna í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert