Sagt er frá því á fréttavef Reuters að í nánustu framtíð verði hægt að skoða hvali í vetnisknúnu skipi og leigja bíla sem ganga fyrir vetni í Reykjavík. Fram kemur að hvalaskoðunarskipið Elding verði fyrsta skip í heimi sem hafi vél sem knúin sé af vetni.
Vignir Sigursveinsson eigandi Eldingar segir að skipt verði um eina vél í skipinu eða ljósavélina sem áður var díselvél. Með breytingunni verður efnarafall notaður til þess að framleiða rafmagnsorku úr vetni.
Við hvalaskoðanir er oft slökkt á aðalvélum skipsins en eftir að vetnisljósavélin kemur í notkun mun verða hægt að njóta náttúrunnar með mun friðsælla móti þar sem ekki mun heyrast í drunum díselvélar. Ljósavélinni fylgir einhver gufa en hún er hljóðlát, að sögn Vignis.
Vignir segir þetta vera þróunarverkefni með það markmið að kanna nýtingu vetnis í sjó sem er unnið í samvinnu við Nýorku og fleiri aðila. Undirbúningur hafi staðið í eitt ár og stefnt er að því að keyra verkefnið í tvö ár.
Til stendur að taka breytta Eldingu formlega í notkun 24. apríl næstkomandi. Sýningarsalur verður um borð í Eldingu, þar sem hægt verður að sjá efnarafalinn.
Fram kemur í greininni á Reuters að fyrir utan að höfða til ferðamanna sem leita sífellt grænni ferðaleiða mun skipið verða þáttur í því að færa Íslendinga nær markmiðinu um að vetnisvæða samgöngutæki í landinu fyrir árið 2050.