Útilokar ekki samstarf við Frjálslynda

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Ólafur F. Magnússon kynna nýjan meirihluta …
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Ólafur F. Magnússon kynna nýjan meirihluta á Kjarvalsstöðum. mbl.is/Júlíus

Ólafur F. Magnússon, verðandi borgarstjóri, útilokar ekki að einhverjir þeirra sem muni starfa fyrir F-listann í nýjum meirihluta í Reykjavík muni koma úr röðum Frjálslynda flokksins. Ólafur gekk sjálfur úr þeim flokki á síðasta ári.

„Ég vil ekkert útiloka í því sambandi og bendi á að einn af forystumönnum Flistans [Kjartan Eggertsson] í síðustu borgarstjórnarkosningum er bæði meðlimur og varaþingmaður Frjálslynda flokksins. Hann hefur að sjálfsögðu fengið að starfa eðlilega fyrir listann í nefndum eins og áður. Annað hefur ekki komið til greina af minni hálfu. Ég heyri einnig víða að úr Frjálslynda flokknum mikla ánægju með þessa stefnuskrá nýs meirihluta.“

Mætti með fjórum á fund

Aðspurður hverjir muni starfa fyrir F-lista í borgarstjórn segir Ólafur nóg af góðu fólki vera á listanum þrátt fyrir brotthvarf Margrétar Sverrisdóttur og Guðrúnar Ásmundsdóttur. „Það er nú þegar talsverður fjöldi fólks sem skipar þessi sæti fyrir okkur sem mun allt standa heilshugar á bak við oddvita flokksins og stefnumál framboðsins.“

Samkvæmt heimildum 24 stunda fundaði Ólafur síðdegis í gær með borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins. Með í för voru þrír frambjóðendur F-listans í síðustu kosningum; Ásta Þorleifsdóttir, Kjartan Eggertsson og Egill Örn Jóhannesson.

Frekar trúverðugleika en völd

Margrét Sverrisdóttir segir myndun nýja meirihlutans vera pólitískan afleik. Hún segist frekar hafa viljað halda trúverðugleika sínum en völdum. „Annað sem mér finnst auka á niðurlægingu mína er að ég hef grun um að hann sé tilbúinn að leita liðsinnis hjá Frjálslynda flokknum. Ég held að hann hafi hug á því að eiga sitt bakland þar. Ég á hins vegar ekki samleið með Frjálslynda flokknum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert