25,9% Reykvíkinga styðja nýjan meirihluta borgarstjórnar, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins. Stuðningur við meirihlutann er meiri meðal karla en kvenna en 34,8% karla segjast styðja hann en 16,6 prósent kvenna. 88,5% aðspurðra tóku afstöðu til spurningarinnar. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Mestur er stuðningur við meirihlutann meðal kjósenda Sjálfstæðisflokks og Frjálslyndra, rúm 75%. Þá segjast rúm 42% kjósenda Framsóknarflokks styðja meirihlutann.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins í borginni mælist 34,8% og hefur minnkað um 9 prósentur frá könnun, sem blaðið gerði 9. janúar. Fylgi Samfylkingar eykst hins vegar um 7 prósentur og mælist 42,3%.
56,9% segjast vilja Dag B. Eggertsson sem borgarstjóra, 5,5% segjast vilja Ólaf F. Magnússon, sem tekur við því embætti í dag og 18,1% segist vilja Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson.