Um helmingur Álftnesinga yfir átján ára aldri skrifaði sig á undirskriftalista gegn deiliskipulagi bæjarins sem afhentir voru Sigurði Magnússyni bæjarstjóra um tvöleytið í gær.
Undanfarna daga hafa tveir hópar með ólíkar áherslur safnað undirskriftum gegn nýju skipulagi í bænum. Magnús Stephensen, Reynir Jóhannsson, Þór Ingólfsson og Guðbjartur Gunnarsson söfnuðu 95 undirskriftum gegn fjórum þáttum skipulagsins: flutningi Norðurnessvegar og byggingu húsa við veginn, bensínstöð sem byggja á nálægt Bessastöðum og Skólaveginum, verði Breiðumýri lokað. Undirskriftunum var safnað m.a. í Suðurtúni en þar tóku allir íbúarnir þátt.
Brynja Guðmundsdóttir, Guðrún Jóhannsdóttir, Ragnheiður Valdimarsdóttir, Gerður Björk Sveinsdóttir, Pétur Daníelsson og Halldór Kristmannsson mótmæla undir yfirskriftinni „Verndum börnin!“ og leggja áherslu á Skólaveg og styttingu Breiðumýrar. Þau sendu dreifibréf um allan bæinn og tóku á móti um 600 undirskriftum en að auki skilaði margt fólk undirskriftum sínum sjálft til bæjarins, að sögn Gerðar. Hópurinn vonaðist eftir 400 undirskriftum og því var þátttakan framar vonum.