Björn Ingi hættir

Björn Ingi Hrafnsson.
Björn Ingi Hrafnsson. Árvakur/Sverrir

Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjavík hefur ákveðið að óska eftir lausn frá störfum sem borgarfulltrúi í Reykjavík. Óskar Bergsson, varaborgarfulltrúi, mun taka sæti hans.

Fram kemur á bloggsíðu Björns Inga að almenningur hafi orðið vitni að óvenjulega rætnum og persónulegum árásum gegn honum síðustu daga. Hreint og beint hatur í hans garð frá fyrrverandi þingmanni flokksins og gömlum samherja hafi vakið þjóðarathygli. Þá segir að stjórnmálamenn standi veikast þegar að þeim sé sótt úr eigin röðum. Þá verði til sárindi sem erfitt sé að græða, traustið veikist og ánægjan hverfur. Þegar svo sé komið  standi lítið eftir.

Yfirlýsing hans fer í heild sinni hér á eftir: 

 „Ég hef um sex ára skeið tekið virkan þátt í starfi Framsóknarflokksins, bæði á landsvísu og í Reykjavík. Ég hef notið þeirra forréttinda að vera starfsmaður Framsóknarflokksins, aðstoðarmaður ráðherra og nú síðast kjörinn borgarfulltrúi í Reykjavík og sem slíkur formaður borgarráðs frá síðustu borgarstjórnarkosningum.

Þessi trúnaðarstörf hafa veitt mér mikla ánægju, ég hef notið þess að kynnast miklum fjölda fólks og eignast vináttu þess. Sú lífreynsla að taka þátt í fjölmennu og opnu prófkjöri og hafa þar sigur í krafti geysilegrar samstöðu og mikillar vinnu fjölda stuðningsmanna er reynsla sem ég met mikils og mun ávallt lifa með mér.

Það er mikil prófraun að standa í stjórnmálabaráttu. Verkin eru mörg, vinnudagurinn er langur og álagið oft yfirþyrmandi. Að auki skiptast á skin og skúrir í hrunadansi pólitíkurinnar, eins og tíðindin í borgarstjórn Reykjavíkur hafa borið með sér undanfarnar vikur og mánuði. Margt af því getur verið spennandi að taka þátt í, en annað dregur ekki fram bestu hliðarnar í lífi stjórnmálamannsins.

Það er sameiginlegt verkefni allra sem þátt taka í stjórnmálastarfi að breyta þeirri ímynd sem snúið hefur að almenningi upp á síðkastið og sýnir kjörna fulltrúa sem sýnast knúnir áfram af valdabröltinu einu saman og eru tilbúnir að beita klækjum í þeirri viðleitni sinni að sækja fram til frekari áhrifa.

En pólitík er líka ástríða. Fátt er skemmtilegra en góð rökræða við pólitískan andstæðing og í þeim efnum er engin ástæða til að kveinka sér þótt stundum sé tekist hressilega á. Stjórnmálin hafa þannig veitt mér mikla ánægju, enda gaman að finna góðan stuðning þegar hart er barist. Mestu skiptir þegar góður árangur næst. Stoltastur er ég yfir því að hafa samið um framlög til íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar í borginni upp á sex og hálfan milljarð króna og að hafa flutt tillögu um Frístundakort fyrir öll börn í borginni á aldrinum sex til átján ára. Einnig að hafa komið því í gegn að námsmenn fengju ókeypis í strætó og að skipulögð verði íbúðabyggð í Örfirisey. Ótal fleira mætti nefna, en þegar slíkar hugsjónir verða að veruleika og maður skynjar sterkt áhrif þeirra á samtíma sinn og samfélag, er til einhvers að standa í pólitískri baráttu.

En til er önnur hlið á þeim peningi. Hún er sú að jafnan standa stjórnmálamenn veikast þegar að þeim er sótt úr eigin röðum. Þá verða til sárindi sem erfitt er að græða, traustið veikist og ánægjan hverfur. Þegar gleðin er horfin, stendur lítið eftir.

Almenningur hefur orðið vitni að óvenjulega rætnum og persónulegum árásum gegn mér síðustu daga. Hreint og beint hatur í minn garð frá fyrrverandi þingmanni flokksins og gömlum samherja hefur vakið þjóðarathygli og halda skeytasendingar hans áfram, enda þótt allar helstu stofnanir og forysta Framsóknarflokksins lýsi yfir eindregnum stuðningi við mig og mín störf. Hið sama gerði fjölmennur fundur framsóknarmanna í Norræna húsinu í fyrrakvöld og raunar Miðstjórn Framsóknarflokksins á haustfundi sínum á Akureyri fyrir skemmstu.

Þegar við svo bætist, að illa fengin gögn og fylgiskjöl úr bókhaldi kosningabaráttu flokksins eru farin að rata til fjölmiðla, má öllum vera ljóst að hatrið og viljinn til að koma höggi á mig og Framsóknarflokkinn eru orðin allri skynsemi yfirsterkari. Slík vinnubrögð vega vitaskuld að sjálfri tilvist hvers stjórnmálaflokks; trúverðugleik hans og innra starfi. Þau vega að heiðri mínum og annarra frambjóðenda flokksins, þeirra sem starfað hafa í kosningabaráttunni og kosningastjórninni, þeim stjórnum kjördæmasambanda sem hafa fyrir löngu samþykkt og gengið frá lyktum kosningabaráttunnar og bókhaldi hennar og einsett sér markmið um fjáröflun í framhaldinu, rétt eins og í öllum flokkum og framboðum að loknum kosningum.

Á slíkum tímamótum er rétt að staldra við. Vitaskuld eru fjármál stjórnmálaflokka ekki á könnu eða ábyrgð einstakra frambjóðenda, en þegar slíkur trúnaðarbrestur í félagsstarfi er kominn upp og er knúinn áfram af heift í minn garð, hlýtur að vera orðin áleitin spurning hvort persónuleg óvild tiltekinna einstaklinga gegn mér sé farin að bitna á fjölskyldu minni, almennt á Framsóknarflokknum og fólki innan hans í Reykjavík og um land allt.

Við það er ekki unnt að una, að mínu mati. Ég vil þakka öllum þeim fjölmörgu sem hafa haft samband símleiðis, bréflega eða gegnum tölvupóst síðustu daga og hvatt mig til dáða. Það hefur gefið mér mjög mikið að finna allan þann stuðning og vináttu. Sömuleiðis er alveg ljóst að Framsóknarflokkurinn hefur gefið mér miklu meira en ég honum.

Að öllu vegnu er niðurstaða mín að rétt sé að víkja til hliðar. Ég óska þess að Framsóknarflokknum lánist að rétta úr kútnum og efla samstöðuna innan sinna raða.

Ég mun því óska eftir lausn frá störfum sem borgarfulltrúi í Reykjavík á borgarstjórnarfundi frá og með deginum í dag að telja. Óskar Bergsson, varaborgarfulltrúi, tekur við sem borgarfulltrúi til og með þeim tíma.

Reykjavík, 23. janúar 2008
Björn Ingi Hrafnsson"

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka