Stjórnarandstöðuþingmenn voru harðorðir í garð Sjálfstæðisflokksins á Alþingi í gær og sökuðu flokkinn um tvöfeldni, blekkingar og tvískinnung. Tilefnið var svar Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra við fyrirspurn Valgerðar Sverrisdóttur, þingmanns Framsóknarflokks, varðandi útrásarverkefni sem ríkisfyrirtækin Landsvirkjun og RARIK taka þátt í, m.a. í samvinnu við Landsbankann.
Valgerður vitnaði til orða fyrrverandi og tilvonandi borgarstjóra, Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, um að Orkuveita Reykjavíkur ætti ekki að taka þátt í áhættusömum rekstri með einkaaðilum og spurði hvort ráðherra hygðist í samræmi við það draga ríkisfyrirtækin út úr útrásarverkefnum.
Árni svaraði spurningunni neitandi en sagði jafnframt að það skipti meginmáli að standa rétt að þátttöku orkufyrirtækja í ríkiseigu í útrásarverkefnum.
Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna, tók sterkar til orða og sagði Sjálfstæðisflokkinn vera orðinn valdagírugan hentistefnuflokk sem segði eitt á Alþingi en annað í borgarstjórn. „Það er greinilega ekki aðeins í orkuútrásinni sem tilgangurinn helgar meðalið hjá þessum flokki,“ sagði Álfheiður og vísaði til nýjustu hræringa í borgarpólitíkinni. Sjálfstæðisflokkurinn væri tilbúinn að kaupa fólk til fylgilags við sig með blekkingum og lygum. „Megi Sjálfstæðisflokkurinn uppskera eins og hann hefur nú til sáð,“ sagði Álfheiður.