Dagur B. Eggertsson, fráfarandi borgarstjóri, sagði á aukafundi borgarstjórnar í Ráðhúsi Reykjavíkur, að í dag ætti að kjósa í Reykjavík, ekki bara í Ráðhúsinu heldur í borginni allri vegna þess að borgarbúum væri misboðið.
Sagði Dagur, að í atburðarás undanfarinna daga hefði smám saman komið óyggjandi í ljós, að nýr meirihluti væri byggður á blekkingum, skorti á upplýsingum og fljótfærnislegum vinnubrögðum, sem aldrei áður hefðu sést í íslenskri pólitík.
Þessu væri mikilvægt að halda til haga áður en hefðbundnar leikreglur borgarstjórnarsalarnis væru notaðar til að knýja þessa niðurstöðu fram. Þetta fæli í sér djúpstæðari stjórnarkreppu en menn hefðu gert sér grein fyrir þegar fréttir af viðræðum tveggja manna fóru að kvisast út.
Dagur sagði að Sjálfstæðisflokkurinn hefði við myndun meirihlutans lagst á hnén og notað borgarstjórastólinn sem tálbeitu.
Dagur sagði, að verkefni þessa vetrar fælust ekki í því að slæma höggi á pólitíska andstæðinga heldur stæðu menn frammi fyrir kjarasamningum, uppnámi á fjármálamörkuðum og fleiri vandamálum. „Ég ætla að leyfa mér að efast um að nokkur ábyrgur stjórnmálamaður geti verið fullsæmdur af því að skrifa upp það það sem á að fara hér fram," sagði Dagur. „Reykvíkingar eiga miklu betra skilið en það sem boðið er upp á hér í dag."