Framsóknarmenn slíðri sverðin

Guðni Ágústsson.
Guðni Ágústsson. mbl.is/G.Rúnar

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, segir það íhugunarefni fyrir alla stjórnmálamenn að þau átök sem Björn Ingi Hrafnsson hafi staðið í undanfarið, bæði innan Framsóknarflokksins og utan, hafi snúist um persónu hans, fremur en málefni.

„Eins og við þekkjum sem erum í pólitík er eitt að takast á um málefni en það er annað þegar ráðist er að mönnum persónulega. Þá reynir meira á,“ sagði Guðni.

Björn Ingi hafi hringt í sig í gærkvöldi og skýrt sér frá þeirri ákvörðun að hætta. „Þetta eru mikil tíðindi þegar ungur maður víkur af pólitískum velli eftir mikið starf í borgarstjórn fyrir Reykvíkinga.“

„En þarna risu miklar pólitískar deilur og mjög persónulegar. Fyrst sætti Björn Ingi miklum ofsóknum af hálfu sjálfstæðismanna vegna REI, en átökin núna undanfarið hafa reynt mjög á Björn og hans fjölskyldu. Hann sagði mér að hann gæti ekki lengur starfað við þessar aðstæður, og að Framsóknarflokkurinn myndi einnig líða í þessari umræðu.“

„Ég bið alla flokksmenn að slíðra sín sverð og biðla til flokksmanna að gæta að sér. Sannarlega er það nú svo, að Framsóknarmenn hafa komið miklu til framkvæmda þau 13 ár sem þeir hafa setið í meirihluta borgarstjórnar, borgarbúum til hagsbóta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka