Fundur hafinn á ný Ráðhúsinu

Fundur er hafinn á ný í Ráðhúsinu en stöðva þurfti fundinn vegna háværra mótmæla á áhorfendapöllum Ráðhússins þegar borgarstjórnarfundur hófst þar 12:15 í dag. Gera þurfti hlé á fundinum kl. 13. Meirihluti mótmælendanna yfirgáfu Ráðhúsið í framhaldinu.

Mótmælendur, sem samanstanda af ungliðahreyfingum Samfylkingar, Vinstri grænna, Framsóknarflokksins, ungra stuðningsmanna Margrétar Sverrisdóttir auk annarra borgarbúa, gerðu hróp og köll að nýja meirihlutanum og baulaði m.a. þegar borin var upp tillaga um að nýr forseti borgarstjórnar og varaforseta var borin upp.


Mótmælin héldu áfram og rétt rúmlega eitt neyddist Hanna Birna Kristjánsdóttir, sem var kjörin forseti borgarstjórnar, að gera hlé á fundinum vegna ólátanna. Kallað var eftir aðstoð lögreglu til að rýma pallana.


Dagur B. Eggertsson, fráfarandi borgarstjóri og nýkjörinn fyrsti varaforseti borgarstjórnar, sagði að í dag ætti að kjósa í Reykjavík, ekki bara í Ráðhúsinu heldur í borginni allri vegna þess að borgarbúum væri misboðið.

Hann sagði jafnframt að í atburðarás undanfarinna daga hefði smám saman komið óyggjandi í ljós, að nýr meirihluti væri  byggður á blekkingum, skorti á upplýsingum og fljótfærnislegum vinnubrögðum, sem aldrei áður hefðu sést í íslenskri pólitík

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert