Svisslendingar standa sig best þegar kemur að umhverfismálum samkvæmt nýrri skýrslu sem umhverfislagadeild Yale háskóla og jarðarstofnun Columbia háskóla hafa gefið út. Íslendingar eru í ellefta sæti á listanum, fyrir neðan allar Norðurlandaþjóðirnar að Danmörku undanskilinni, Costa Rica, Kólumbíu og Frakkland.
Samkvæmt listanum standa Svisslendingar sig einkar vel í umhverfisvernd og í notkun endurnýjanlegra orkugjafa. Evrópulönd standa sig hvað best samkvæmt þeim mælikvörðum sem notaðir eru en skýrslan sýnir bein tengsl milli góðrar efnahagsstöðu, skynsamrar stefnu í umhverfismálum og heilsu íbúa.
Íslendingar ná ekki inn á lista yfir tíu efstu löndin og fá 87 stig af 100 mögulegum, en Svisslendingar fá 95. Norðmenn og svíar fá 93 stig en Finnar 91.
Það er helst fiskveiðistefna Íslendinga sem veldur því að landið kemst ekki á lista með þeim fremstu. Ísland fær aðeins fjögur stig af 100 mögulegum vegna verndunar á fiskveiðisvæðum, ekki eru gefnar frekari skýringar á forsendum þeirra útreikninga á listanum.
Bandaríkjamenn eru í 39. sæti og sitja neðar á listanum en mörg þróunarríki. Þar kemur einkum til slæm stjórnun vistkerfisins, einkum hvað varðar útblástur og viðbrögð við loftslagsbreytingum.