„Mótmælin ekki alveg marktæk"

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur segist ekki telja þá atburði sem nú eru að eiga sér stað í Ráðhúsi Reykjavíkur vera sögulega þrátt fyrir að fátítt sé að lögregla sé kölluð til vegna pólitískra mótmælaaðgerða hér á landi.

„Það hefur verið mikil festa í borgarstjórnarmálunum í gegn um tíðina og ég veit ekki til þess að slíkir atburðir hafi átt sér stað fyrr í tengslum við borgarmálin. Ég er hins vegar ekki viss um að þessi mótmæli séu alveg marktæk," sagði hún er blaðamaður mbl.is ræddi við hana í dag. „Þarna var um að ræða  ungt fólk og ungliða sem hleypur fljótt kapp í kinn. Það þekkir ekki alveg þingsköp og virðir ekki fundarreglur. Þar við bætist að það tók ekki tilmælum og því var lögregla kölluð til."

Þá sagði Stefanía að  sér hafi sýnst álíka margir ungliðar úr Sjálfstæðisflokknum vera á áheyrendapöllunum og ungliðar minnihlutaflokkanna. Þeir hafi hins vegar sýnt háttvísi og látið sér nægja að klappa er fulltrúar flokksins voru kjörnir í embætti.

Borgarstjórnarfundi í Reykjavík var í dag í fyrsta skipti í sögunni frestað vegna óláta á áheyrendapöllum.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert