Ólafur tekur við lyklum

Ólafur F. Magnússon tekur við lyklavöldum á skrifstofu borgarstjóra af …
Ólafur F. Magnússon tekur við lyklavöldum á skrifstofu borgarstjóra af Degi B. Eggertssyni. mbl.is/Kristinn

Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-lista, tók síðdegis við lyklavöldum á skrifstofu borgarstjóra Reykjavíkur úr hönd Dags B. Eggertssonar, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar. Ólafur var í dag kjörinn borgarstjóri á aukafundi borgarstjórnar, sem gera þurfti hlé á um tíma vegna háværra mótmæla á áhorfendapöllum.

Nýr meirihluti F-lista og Sjálfstæðisflokks lagði til á aukafundi borgarstjórnar í dag, að fasteignaskattar í borginni lækki um 5%.  Var í tillögunni vísað til þess, að fasteignamat á húsnæði borgarbúa hefði hækkað verulega um áramótin, eða 12%, og skatttekjur borgarinnar af fasteignasköttum að sama skapi.

Tillagan var samþykkt með 8 greiddum atkvæðum en borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknarflokks og Vinstri grænna sátu hjá.

Síðdegis var haldinn fundur borgarráðs og þar var lögð fram tillaga um að standa vörð um 19. aldar götumynd Laugavegar með því að samþykkja að borgarstjóri gangi til viðræðna við eigendur Laugavegar 4 og 6 með það að markmiði að borgin kaupi húsin og láti gera þau upp.

Meirihlutinn segir, að markmið endurbyggingarinnar verði að viðhalda götumyndinni, en stækka jafnframt það rými sem nýtist í verslun eða aðra þjónustu. Endurbyggingin verði í góðri samvinnu við Minjavernd, borgarminjavörð og Húsafriðunarnefnd.

Borgarráð leggur áherslu á að viðræðunum ljúki fyrir nk. mánudag, þannig að húsin verði ekki fjarlægð þegar skyndifriðun lýkur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka