Skilur ákvörðun Björns Inga

Óskar Bergsson.
Óskar Bergsson. mbl.is

„Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, segir að í flestum tilvikum hafi það átt að vera fagnaðarefni að taka við starfi borgarfulltrúa en nú gerist það með sérstökum hætti. Erfitt sé að gleðjast nú þar sem Björn Ingi sé ekki að hætta í borgarstjórn þar sem hann hafi ekki staðið sig sem skyldi. Ástæðan sé önnur, hún sé meiðandi og að hann skilji vel ákvörðun Björns Inga um að láta af starfi nú.

Óskar tók við af Birni Inga Hrafnssyni sem borgarfulltrúi Framsóknarflokksins á fundi borgarstjórnar í dag.

Segir Óskar umræðuna um Björn Inga að undanförnu ómaklega og ekki réttmæta. Telji hann rétt að stjórnmálamenn staldri við og íhugi að á bak við hvern stjórnmálamann sé fjölskylda og fleiri tengdir aðilar. Óskar segir að það séu fleiri en stjórnmálamenn sem eigi að taka þetta til sín því þetta eigi við um fleiri, fjölmiðla, bloggara „og ekki síst þeir sem við teljum til pólitískra samherja," sagði Óskar.

Hann segist vonast til þess að brotthvarf Björns Inga úr borgarstjórn reynist öllum dýrkeypt reynsla. Það sé mikilvægt fyrir Framsóknarflokkinn að endurmeta stöðu sína og flokkstarf sitt. Flokkurinn þurfi að endurskoða vinnubrögð hugarfar og samstöðu.  „Ég vil í tilefni dagsins enn og aftur þakka  Birni Inga fyrir frábært samstarf."

 Óskar segir að ekki verði nein breyting á samstarfi minnihlutans í borgarstjórn þrátt fyrir brotthvarf Björns Inga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert