Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri, þakkaði fyrir stuðninginn sem hann hlaut í embætti borgarstjóra en hann var kjörinn með átta atkvæðum gegn sjö áður en fundur var rofinn vegna óláta á áhorfendapöllum. Segir Ólafur að nýr meirihluti í borginni snúist fyrst og fremst um málefni eins og borgarbúar munu sjá á næstu mánuðum.
Segist hann hafa kynnst því á undanförnum dögum að orrahríðin geti verið hörð í borgarmálum og segist hann ekki telja að umræðan að undanförnu eigi eftir að spilla góðu samstarfi í borgarmálum.
Hann segist hafa eigin sannfæringu þrátt fyrir að það hafi kostað hann tímabundna erfiðleika. Segir hann F-lista hafa orðið lítt ágengt með fyrri meirihluta og það breytist með nýjum meirihluta.
Ólafur segir markmiðið að skapa frið og stöðugleika í borginni. „Við erum staðráðin í að vinna vel að hagsmunum borgarbúa," sagði Ólafur.
Hann segist hafa ákveðið að tjá sig ekki um árásir sem hann hefur orðið fyrir undanfarið persónulega.