Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, sagði í samtali við Sjónvarpið að það hefði greinilega verið skipulagt að mæta á áhorfendapallana borgarstjórnar og vera þar með læti. Sagði hann hryggilegt að horfa upp á þetta.
Þá sagði Vilhjálmur að þær grófu persónulegu árásir, sem Ólafur F. Magnússon hefði sætt, væru óviðunandi. Sjaldan verið ráðist á menn með jafn svívirðilegum hætti, ekki bara í fjölmiðlum heldur einnig einnig á blogginu. Það væri umhugsunarefni fyrir almenning í Reykjavík hvað menn ætluðu að ganga langt til að eyðileggja persónu þessa manns.