Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tvo karlmenn, Arunas Bartkus sem er 31 árs, og Rolandas Jancevicius, sem er 28 ára, í fimm ára fangelsi hvorn fyrir að nauðga konu í miðborg Reykjavíkur í nóvember á síðasta ári. Mennirnir voru einnig dæmdir til að greiða konunni 2 milljónir króna í miskabætur.
Konan leitaði til neyðarmóttöku Landspítalans egna nauðgunar. Hún sagðist hafa hitt tvo útlendinga á veitingastað við Laugaveg og þau töluðu þar saman. Konan sagðist fyrst hafa farið með mönnunum út úr veitingastaðnum en síðar að hún hefði farið ein út og verið að ganga heim þegar hún hitti mennina aftur. Mennirnir hefðu síðan hent eða ýtt henni með bakið ofan á vélarhlíf fólksbifreiðar, sem lagt hefði verið á milli húsveggja við gangstétt nálægt Laugavegi. Mennirnir hefðu dregið gallabuxur hennar niður, flett upp bol hennar og peysu, klipið og kreist líkama hennar og síðan nauðgað henni.
Konan var með ýmsa áverka sem læknar töldu að samrýmdist frásögn hennar.
Annar maðurinn bar við yfirheyrslur að konan hefði samþykkt að hafa kynmök við þá en hinn sagðist hafa verið mjög ölvaður og myndi ekkert eftir kvöldinu.
Í niðurstöðu dómsins segir m.a., að konan hafi verið stöðug í vitnisburði sínum um atvik í bifreiðaskýlinu, þótt lýsing atburðarásar hafi ekki ávallt verið með nákvæmlega sama hætti. Hún hafi þó einatt borið á sama veg, hjá lögreglu og fyrir dómi, um óvænta árás Arunas Bartkus, hvernig hann hafi hrint henni á vélarhlíf bifreiðar og löðrungað hana. Þá er vísað til þeirrar niðurstöðu sálfræðinga, að konan beri ótvíræð og sterk einkenni áfallastreituröskunar.
Segir dómurinn síðan, að það sé hafið yfir skynsamlegan vafa, að mennirnir hafi beitt konuna kynferðislegu ofbeldi, eins og hún hafi lýst því fyrir dómi og að leggja skuli þá lýsingu til grundvallar, enda ekkert haldbært fram komið í málinu, sem veiki vitnisburð hennar eða dragi úr trúverðugleika hennar.
Mennirnir, sem eru Litháar, hafa báðir hlotið þunga dóma í heimalandi sínu, annar fyrir fjárkúgun og þjófnað og hinn fyrir rán. Segir dómurinn að við ákvörðun refsingar verði að horfa til þess hve hrottalegur verknaður mannanna var, bæði í ljósi kringumstæðna og þeirra svívirðilegu og niðurlægjandi aðferða, sem þeir beittu gagnvart konu, sem þeir þekktu lítið og áttu ekkert sökótt við, þess gríðarlega sálartjóns, sem þeir ollu konunni samkvæmt áreiðanlegu vætti sálfræðings og fullkomins skeytingarleysis fyrir líðan hennar, kynfrelsi og æru, þegar þeir veittust að henni í bílskýlinu, notfærðu sér og hlógu að bjargarleysi hennar, auðsýndu einbeittan ásetning til að koma fram vilja sínum og skirrðust einskis, þrátt fyrir beiðni hennar um miskunn, en við svo búið hurfu mennirnir á braut, eins og ekkert hefði í skorist.
Þá segir dómurinn að annar maðurinn hafi síðan borið við minnisleysi um atburði og hinn með auvirðilegum hætti vænt konuna um falska kæru, sem rót eigi að rekja til fjárgræðgi og vonbrigða með samfund við mennina í umræddu rými, um miðja nótt í þriggja stiga hita, og að auki gefið í skyn að hún hafi hlotið áverka á kynfærum við samræði með óskyldum aðila, í kjölfar samskipta við Litháana.
Að gættum öllum þessum atriðum er það ekki aðeins álit dómenda, að mennirnir hafi unnið til þungrar refsingar og eigi sér engar málsbætur heldur einnig, að þyngja beri refsingu þeirra sérstaklega í ljósi samverknaðar.