Reykjavíkurborg og Kaupangur ehf. hafa komist að samkomulagi um kaup borgarinnar á fasteignunum Laugavegi 4 og 6 af Kaupangi. Kaupin eru í samræmi við tillögu borgarstjóra á fundi borgarráðs í gær Húsafriðunarnefnd hefur fallið frá ósk um friðun húsanna.
Reykjavíkurborg gefur ekki kaupverðið upp strax eða fyrr en borgarráð hefur fjallað um samninginn en samningurinn er gerður með fyrirvara um samþykki borgarráðs.
Fram kom í fréttum Útvarpsins í dag, að gert sé ráð fyrir að Reykjavíkurborg þurfi að kosta til 236,4 milljónum króna vegna kaupa á húsunum og endurbyggingar þeirra. Sú tala er áætlaður heildarkostnaður að frádregnu áætluðu söluverði húsanna að lokinni endurbyggingu.
Í tillögu Ólafs F. Magnússonar, borgarstjóra, í borgarráði í gær, sagði að viðræður um kaup á húsunum væri í samræmi við stefnumörkun nýs meirihluta um að standa vörð um 19. aldar götumynd Laugavegar. Stefnt sé að því að gera húsin upp og markmið endurbyggingarinnar verði að viðhalda götumyndinni en stækka jafnframt það rými sem nýtist í verslun eða aðra þjónustu.
Fram kom á blaðamannafundi, sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, hélt nú síðdegis, að húsafriðunarnefnd hefur fallið frá ósk um að húsin tvö verði friðuð og er það gert í ljósi þess að borgin hefur keypt húsin.
Þorgerður Katrín kallaði eftir auknu og bættu samstarfi húsafriðunarnefndar og skipulagsyfirvalda í borginni þannig að litið yrði á mál heildstætt. Hún sagðist vita, að á húsafriðunarnefnd væri að senda ráðuneytinu erindi um friðum 10 húsa við Laugaveg og í ljósi þess væri eðlilegt að þessir aðilar fjölluðu um málefni götunnar og miðborgarinnar í heild.