Gert er ráð fyrir að varðskipið Óðinn verði fært að Bótarbryggju neðan við Kaffivagninn á Grandagarði um mánaðamótin til að bera það við festingarnar sem eiga að halda skipinu við bryggjuna. Óðinn á að vera safn um sögu þorskastríðanna og staðsettur norðan megin við bryggjuna. Dráttarbáturinn Magni á sér einnig merka sögu og til stendur að hann verði sunnan megin.
Óðinn er í eigu ríkisins og í vörslu Landhelgisgæslunnar við Faxagarð. Guðmundur Hallvarðsson, fyrrverandi alþingismaður og formaður Hollvinasamtaka Óðins, segir að verið sé að ganga frá ýmsum lausum endum í sambandi við skipið. Verið sé að ljúka við að ganga frá bryggjunni og skipuleggja hvernig landgangi milli skips og bryggju verði best fyrir komið. Búið sé að reka niður lóðrétta stálbita og eiga sérstakar festingar, sem verða settar á síðu skipsins, að ganga inn í brautir á bryggjunni. Skipið verði þannig fast við bryggju en renni til í brautunum eftir hæðarmismun sjávar.