Hamingju leitað á Íslandi

Blaðamaðurinn sjónumhryggi Eric Weiner.
Blaðamaðurinn sjónumhryggi Eric Weiner.

„Í grunninn er ég ennþá vansæll, en þó aðeins hamingjusamari en áður,“ segir Eric Weiner, sem skrifaði bókina The Geography of Bliss, sem er í áttunda sæti metsölulista New York Times yfir nýútgefnar bækur vestra almenns efnis. Weiner ferðaðist til tíu landa í leit að hamingjuríkasta staðnum og er einn kafli helgaður Íslandi.

Ástæðan fyrir komu Weiners til Íslands er sú að Íslendingar mælast með hamingjuríkustu þjóðum í heimi í hollenskum gagnabanka um hamingjuna, sem Ruut Veenhoven hefur komið upp. Í sumum könnunum sú hamingjuríkasta. Og öfugt við það sem margir halda, þá sýna rannsóknir að hamingja þjóða eykst eftir því sem loftslagið er kaldara.

Weiner kemst að ýmsu um Íslendinga meðan á dvöl hans stendur, meðal annars að rithöfundar njóti almannahylli. Og raunar fyrirfinnist vart sá Íslendingur sem ekki sé skáld eða rithöfundur.

„Íslendingar henda gaman að því að einhvern tíma verði reist stytta til heiðurs eina Íslendingnum sem aldrei skrifaði ljóð.“ Og það sem meira er, á Íslandi eru listamenn hamingjusamir! Þá ýtir undir hamingju þjóðarinnar að mati Weiners að atvinnuleysi hefur aldrei viðgengist á Íslandi, þó að verðbólga hafi stundum verið há. Rannsóknir sýni að verðbólga dragi minna úr hamingju, þar sem hún bitni jafnt á öllum, en afmarkaður og tilviljanakenndur hópur verði fyrir barðinu á atvinnuleysi, það geti haft djúpstæð áhrif og vakið öðrum ótta.

Svo má rekja hamingju Íslendinga til öfundar eða öllu heldur skorts á henni og fyrirgefningar á mistökum (ef þau voru vel meint). Og Weiner kemst að þeirri niðurstöðu að í einangrun sinni andspænis miskunnarlausum náttúruöflum hefðu Íslendingar hæglega getað farið rússnesku leiðina, örvæntingar og drykkju. En í staðinn hafi þessir harðgerðu synir og dætur víkinganna horft upp í gínandi myrkrið á hádegishimninum og kosið hamingju og drykkju. „Það er, að ég held, skynsamlegri kostur. Og hvað annað ætti fólk svo sem að hafa fyrir stafni í myrkrinu?“

Nánar er fjallað um bókina og hamingju í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Forsíða bókarinnar The Geography of Bliss.
Forsíða bókarinnar The Geography of Bliss.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka