„Það hefur aldrei verið felldur þyngri dómur fyrir eitt nauðgunarbrot hér á landi, en þess ber að geta að mennirnir voru tveir og var það þeim til refsiþyngingar.“
Þetta segir Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari, sem sótti mál gegn tveimur Litháum sem dæmdir voru í fimm ára fangelsi hvor í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær fyrir hrottalega nauðgun í miðbæ Reykjavíkur í nóvember.
„Auk þess að vera tveir voru fleiri refsiþyngjandi ástæður. Þeir áttu sakaferil að baki og ollu miklu sálrænu tjóni hjá einstaklingnum, eins og gerist alltaf í svona málum. Svo var árásin mjög hrottafengin og mennirnir unnu saman, svo segja má að árásin hafi verið skipulögð,“ segir Sigríður.