Vilja íbúðabyggð í Vatnsmýri

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík og formaður borgarráðs, …
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík og formaður borgarráðs, ræddi borgarmál á Hótel Sögu í dag. Árvakur/G.Rúnar

"Það er mín ein­dregna skoðun að við eig­um að byggja í Vatns­mýr­inni. Þar á að vera íbúðabyggð í framtíðinni," sagði Gísli Marteinn Bald­urs­son borg­ar­full­trúi á fundi sjálf­stæðismanna í Reykja­vík um borg­ar­mál­efni.  Hanna Birna Kristjáns­dótt­ir borg­ar­full­trúi lýsti sömu skoðun á fund­in­um.

Gísli Marteinn sagði að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn væri ábyrg­ur flokk­ur og hann tæki ekki ákvörðun um að flytja flug­völl­inn fyrr en fyr­ir lægi hvert hann færi. Á þessu kjör­tíma­bili yrði unnið að því að kanna hvaða lausn­ir væru tæk­ar varðandi annað flug­vall­ar­stæði.

"Það að byggja í Vatns­mýr­inni er ein­fald­lega stærsta um­hverf­is­málið í borg­inni," sagði Gísli Marteinn og benti á að 80% starfa  í borg­inni væru í vest­ari hluta borg­ar­inn­ar. Í dag væri fólk að keyra úr aust­ari hluta borg­ar­inn­ar til vinnu, en með því að byggja í Vatns­mýr­inni drægi úr þess­um fólks­flutn­ing­um kvölds og morgna. Að setja 15 þúsund manna byggð aust­ast í borg­inni yki á meng­un, en með því að staðsetja hana í Vatns­mýr­inni dragi úr meng­un.

"Við Ólaf­ur F. Magnús­son erum ekki sam­mála í flug­vall­ar­mál­inu. Við erum ekk­ert að þykj­ast vera sam­mála. Hann tel­ur að flug­völl­ur­inn eigi að vera þarna um alla framtíð, en hann ekki. Við í þess­um hópi [borg­ar­full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins] höf­um sagt það öll, að flug­völl­ur­inn eigi ekki að vera í Vatns­mýr­inni til ei­lífðarnóns," sagði Gísli Marteinn. 

"Við telj­um að í langri framtíð verði Vatns­mýr­in mjög kjörið svæði fyr­ir Reyk­vík­inga. Við átt­um okk­ur á því að til árs­ins 2024 er flug­völl­ur­inn á þessu aðal­skipu­lagi þannig að það er ekki að ger­ast á þessu kjör­tíma­bili að við náum að taka þessa ákvörðun. Það verðum við að horf­ast í augu við, en það þýðir ekki að sú hug­sjón okk­ar að þarna geti orðið mjög góð og fram­sæk­in íbúðabyggð fyr­ir Reykja­vík­inga, að hún hafi horfið," sagði Hanna Birna.

Vil­hjálm­ur Þ. Vil­hjálms­son sagði á fund­in­um að unnið yrði að því á þessu kjör­tíma­bili að kanna önn­ur flug­vall­ar­stæði. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn væri þeirr­ar skoðunar að flug­völl­ur ætti að vera í Reykja­vík. Það væri um­hverf­is­slys að staðsetja hann á Löngu­skerj­um, en Hólms­heiði kæmi vel til greina.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka