SFR-stéttarfélag segist hafa orðið vitni að tilraunum einkafyrirtækja til að komast yfir upplýsingar um heilsufar ríkisstarfsmanna. Stéttarfélagið segir þetta vera alvarlega aðför að persónuvernd einstaklinga og hafnar öllum tilburðum einkafyrirtækja að safna slíkum upplýsingum kerfisbundið.
Þetta kemur fram í ályktun stéttarfélagsins um kerfisbundnar skráningar á heilsufarsupplýsingum starfsmanna ríkisins, sem er eftirfarandi:
„Að undanförnu hefur SFR stéttarfélag orðið vitni að tilraunum einkafyrirtækja til að komast yfir upplýsingar um heilsufar starfsmanna ríkisins. Aðferðin sem þessi fyrirtæki beita er að bjóða stofnunum þjónustu vegna veikindaskráningu starfsmanna. Síðan eru upplýsingarnar sem fyrirtækin safna skráðar kerfisbundið í gagnagrunna.
SFR – stéttarfélag lýtur það mjög alvarlegum augum að einkafyrirtæki fari óhindrað fram með þessum hætti. Það er alvarleg aðför að persónuvernd einstaklinga ef einkafyrirtæki geta safnað viðkvæmum persónuupplýsingum sem þessum. Ennfremur er það alvarlegt mál ef forstöðumenn ríkisstofnana telja það sjálfsagt og eðlilegt að svo sé gert.
SFR – stéttarfélag hafnar öllum tilburðum einkafyrirtækja til að safna kerfisbundið persónuupplýsingum og mótmælir því að ríkisstofnanir semji við einkafyrirtæki um þessa þjónustu. Slíkir samningar brjóta gegn kjarasamningum og eru einnig mjög vafasamir út frá persónuverndarsjónarmiðum. SFR bendir landlækni, Persónuvernd og öðrum til þess bærum aðilum, að stöðva allar heimildalausar vinnslur fyrirtækja á þessu sviði.“