Hellisheiði var lokað um klukkan hálf tvö í nótt vegna ófærðar og bíla sem sátu þar fastir og er hún enn lokuð. Björgunarsveitir hafa unnið að því að aðstoða ökumenn og er nú einn bíll eftir á heiðinni samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Selfossi.
Um klukkan sex í morgun sátu um tíu bílar fastir á heiðinni en verst var ástandið í Svínahrauni. Nú er hins vegar farið að rigna á heiðinni og er vonast til að hægt verði að opna heiðina innan skamms. Þæfingsfærð er enn á Selfossi en þar er einnig farið að rigna.