Kuldatíð framundan

Spáð er mikilli kuldatíð næstu daga en um miðja vikuna snýst vindurinn í norðanátt. Að sögn Veðurstofu Íslands er komið hlé á þeim lægðagangi sem verið hefur að undanförnu og mega landsmenn nú búast við að sjá tveggja stafa frosttölur víða.

Íbúar höfuðborgarsvæðisins mega búast við um 10-15 stiga frosti en kaldast verður inn til landsins, og þar getur kuldinn farið niður fyrir 20 stiga frost. Kuldinn hefur ekki oft farið niður fyrir 15 stiga frost í Reykjavík á undanförnum árum, en árið 2004 mældist það vera 15,1 gráða og árið 1998 mældist frostið rétt undir 15 gráðunum eða 14,9 gráður.

Árið 1979 mældist frostið 16,7 gráður í Reykjavík og 19,7 gráður átta árum áður. Kuldametið í Reykjavík er hins vegar frá árinu 1918 en þá mældist frostið vera 24,5 gráður.

Veðurstofan gerir ráð fyrir hvassri norðanátt seinni part miðvikudags og á fimmtudag. Í lok vikunnar mun lægja og frost herða. Að sögn veðurfræðings hefur veðrið verið afar rysjótt en milt í vetur.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert