Maður á sjötugsaldri hlaut nokkurn áverka á höfði eftir átök við unga stúlku sem réðst að honum með kúbein og stóran rasp að vopni. Manninum tókst að ná yfirhendinni og róa stúlkuna nokkuð áður en hún hvarf aftur af vettvangi.
Forsaga málsins er sú að um klukkan fjögur aðfaranótt sunnudags fékk maðurinn upphringingu þar sem konunni hans, sem vinnur í lyfsölunni á Skagaströnd, var tilkynnt að brotist hefði verið inn í lyfsöluna. Fóru þau hjónin á vettvang til að hafa auga með staðnum þar til lögreglan kæmi á svæðið. Þegar þau voru nýlega komin á staðinn kom stúlka hlaupandi út úr nærliggjandi húsi með kúbein í annarri hendi og járnrasp í hinni.
Stúlkan, sem huldi höfuð sitt að mestu leyti með stórri hettu, hrópaði aftur og aftur að hjónunum „Ég drep ykkur, helvítin ykkar, ef ég fæ ekki rítalínið mitt“ og skipti engum togum að hún réðst að manninum með kúbeinið á lofti.
Manninum tókst að yfirbuga stúlkuna en þó ekki fyrr en hún hafði náð að berja hann í höfuðið með kúbeininu þannig að blæddi úr hnakka hans. Hann hélt síðan stúlkunni og tókst að róa hana þannig að hann gat sleppt henni og hélt hún þá aftur inn í húsið sem hún hafði komið úr. Fljótlega kom svo lögreglan á staðinn og handtók stúlkuna ásamt manni sem var í húsinu með henni. Voru þau þá bæði mjög æst og í annarlegu ástandi af neyslu einhverra lyfja. Voru þau strax vistuð í fangageymslum lögreglunnar á Blönduósi. Þar voru þau svo yfirheyrð eftir hádegi á sunnudag og sleppt að því loknu.
Lögreglan á Blönduósi sagði í samtali að menn með 25 ára reynslu í lögreglunni hefðu aldrei kynnst öðru eins. Til dæmis um það er að lögreglumenn þurftu að sitja yfir manninum inni í klefanum fram undir morgun vegna þess hve æstur hann var. Áður hafði honum tekist með einhverjum hætti að brjóta gler í litlum glugga á klefanum. Þá þurfti að gefa stúlkunni lyf til að róa hana þar sem hún var mjög æst. Bæði stúlkan og maðurinn eiga nokkurn afbrotaferil að baki.
Í viðtali við fréttaritara sagðist starfsstúlka lyfsölunnar telja að unga parið hefði ekki haft mikið upp úr krafsinu. Einhver lyf tóku þau en tókst ekki að brjóta upp öryggishólf sem geymir hættulegustu lyfin. Greinilegt er að þau hafa fyrst reynt að brjótast inn um dyrnar á lyfsölunni því hurðin þar er töluvert skemmd. Þegar það tókst ekki brutu þau rúðu sem er við hliðina á dyrunum og fóru þar inn.
Að sögn starfsstúlkunnar, sem var slegin yfir atburðum næturinnar, voru skemmdir innan dyra ekki miklar en glersalli út um allt og nokkur óreiða. Þá fannst stórt skrúfjárn þar inni sem þau skötuhjúin höfðu haft með sér.