„Staðan hefur ekki batnað, því miður. Ef eitthvað er þá hefur hún versnað,“ segir Sveinn H. Skúlason, forstjóri Hrafnistu, þegar hann er inntur eftir því hvernig gangi að ráða í þau 20-30 stöðugildi sem enn var óráðið í sl. haust.
Að sögn Sveins hafa síðan í desember sl. jafnan staðið 5-7 hjúkrunarrými auð, þó að nægt fólk sé á biðlista eftir plássum, sökum skorts á starfsfólki við aðhlynningu. Segist hann vita allavega tvö dæmi þess að aðstandendum hafi verið tjáð að fjölskyldumeðlimur þeirra með Alzheimer sé næstur inn af biðlista, rýmið standi laust en ekki sé hægt að taka við viðkomandi sökum manneklu.