Hægur gangur í kjaraviðræðum

Forvarsmenn Starfsgreinasambandsins á fundi hjá ríkissáttasemjara.
Forvarsmenn Starfsgreinasambandsins á fundi hjá ríkissáttasemjara. mbl.is/Kristinn

Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins (SGS), segir að sér finnist Samtök atvinnulífsins (SA) draga lappirnar í viðræðum við launþegasamtökin. Í gær funduðu fulltrúar SGS og SA hjá ríkissáttasemjara án árangurs.

„Það var ekki talað um neitt nema svokallað forsenduákvæði kjarasamninga allan daginn og það hvorki gekk né rak. Því er ekki að neita að það er farið að gæta mikillar óþolinmæði hjá okkar fólki. Fólk er að verða dálítið pirrað á viðmóti SA, þeir eru að draga lappirnar að okkar mati. Klukkan tikkar og okkar félagsmenn eru ekki að fá kauphækkun um næstu mánaðamót, svo mikið er víst.“

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir að hlutirnir gangi hægt en það sé ekki ástæða til að örvænta. „Þetta er dálítið eins og að keyra í gegnum skafl. Það gengur hægt fyrst en svo þegar að út úr skaflinum er komið þá skotganga hlutirnir. Það gæti alveg gerst að við kæmumst bráðlega út úr skaflinum, við vonum það alla vega.“

Tíu félög smábátasjómanna hafa nú fjallað um kjarasamning sem gerður var í desember. Öll hafa fellt hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert