Nóróveiran leggur Íslendinga

Nóróveiran hefur verið talsvert í fréttum vestan hafs upp á síðkastið en veiran er bráðsmitandi og veldur uppköstum og niðurgangi.

„Þetta er bara gamla, góða gubbupestin,“ segir Guðrún Sigmundsdóttir, yfirlæknir á sóttvarnarsviði hjá landlæknisembættinu. „Hún gengur helst á veturna og er bráðsmitandi. Ég hef heyrt að hún herji svolítið á fólk þessa dagana.“

Guðrún segir veiruna erfiða enda er hægt að fá nóróveirusýkingu oftar en einu sinni. Þannig getur einstaklingur sem veikist af veirunni veikst aftur.

Smitleiðir eru margar og getur veiran smitast beint manna á milli við snertingu en einnig benda líkur til að smitið geti verið loftborið. Uppköst eru bráðsmitandi og eru dæmi þess að veiran hafi borist í loftinu til fólks í nánasta umhverfi. Önnur algeng smitleið er með fæðu og vatni og er mengun matvæla frá sýktum einstaklingum algeng smitleið.

Mjög mikilvægt er að einstaklingar sem hafa grun um að þeir séu sýktir af nóróveiru haldi sig heima við meðan á veikindum stendur og 2-3 dögum eftir að einkenni eru horfin. Þá eru þeir venjulega lausir við smit en þekkt eru dæmi um smitandi einstaklinga allt að 10 dögum eftir bata.

Til að verjast smiti er ágætt ráð að þvo hendur og sótthreinsa reglulega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert