Segir álit Moody's jákvætt

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Sverrir

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að álit alþjóðlega greiningarfyrirtækisins Moody's sem birt var í gær, sé mjög jákvætt varðandi efnahagsstöðuna á Íslandi. Sagði Geir, að hæsta lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins, Aaa, standi eftir þetta mat.

Geir var að svara fyrirspurn frá Illuga Gunnarssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokks um málið. Sagði Geir, að Moody's virðist hafa sent frá sér þessa skýrslu þar sem fyrirtækið telji sig þurfa að rökstyðja, að það hafi gefið ríkissjóði Íslands hæstu lánshæfiseinkunn.

Geir sagði, að það það væri misskilningur, sem komið hefði fram í fréttum, að í álitinu væri hvatt til þess að bankarnir flytji höfuðstöðvar sínar úr landi. Hins vegar segi, að gerist það muni óbeina ábyrgðin, sem hvíliá ríkissjóði, minnka. Sagði Geir, að það væri rétt en ekki aðalatriðið í skýrslunni.

Sagði Geir, að efnahagsaðstæður hér á landi væru  þannig, að það sé  ekki nein sérstök hætta á ferðum, jafnvel þótt komi til sérlega alvarlegrar fjármálakreppu, sem þó sé ekki talið líklegt. Grunnurinn að þessu væri sterk staða ríkissjóðs, sem tekist hefði að byggja upp á undanförnum árum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert