„Við höfum tekið eftir því að mynstrið er að breytast. Þjófnaðir og innbrot eru orðin skipulagðari og það hefur aukist að hreinsað sé út úr húsum og jafnvel farið í nokkur hús í sama hverfi,“ segir Þór Sigfússon, forstjóri Sjóvár. „Það bendir allt til þess að skipulögð glæpagengi séu að verki í mörgum tilfellum. Litlum og meðalstórum tækjum og búnaði hjá verktökum og öðrum fyrirtækjum er stolið og hann seldur í Austur-Evrópu og jafnvel Skandínavíu líka. Sumt af þessu er jafnvel enn merkt eigandanum þegar það er auglýst til sölu erlendis,“ segir Þór.
Opinn farvegur út úr landinu
„Annað sem virðist hafa breyst er að nú er hægt að selja hluti sem ekki komust í verð áður sem bendir til þess að það sé opinn farvegur út úr landinu sem þarf að gæta að, svo þessi starfsemi aukist ekki og farið verði að flytja stærri hluti úr landi, s.s. stolna lúxusbíla eins og algengt er á meginlandinu,“ segir hann.Þór segir grun leika á að þýfi, sem tekið sé í innbrotum, sé pakkað í gáma og það hugsanlega skráð sem búslóð til útflutnings.
Hann segir Sjóvá hafa haft frumkvæði að viðræðum við lögreglu, fjármálaráðuneyti og tollgæslu um það hvernig megi koma í veg fyrir að þýfi sé flutt hindrunarlaust úr landi. Sjóvá tryggir bæði einstaklinga og fyrirtæki sem lenda í innbrotum og Þór segir því um fjárhagslegt tjón fyrir fyrirtækið að ræða en einnig fylgi oft óbætanlegt tilfinningatjón innbrotum.