Uppsagnir í bolfiskvinnslu ná til 300 starfsmanna

mbl.is/Halldór

Einar K. Guðfinnsson, sjávar- og landbúnaðarráðherra, sagði á Alþingi í dag að uppsagnir í bolfiskvinnslu nái til um 300 starfsmanna á yfirstandandi fiskveiðiári en þær séu sumar tímabundnar og  sumar komi ekki til framkvæmda fyrr en síðar á árinu.

Einar sagði einnig, að uppsagnir í sjávarútvegi væru ekki nýtt fyrirbæri. Störfum í fiskveiðum hefði á árunum 1998-2005 fækkað um nærri 2300 og í fiskvinnslu um 1600. Hér væru á ferðinni skipulagsbreytingar, sem stöfuðu að mestu leyti af tæknivæðingu.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, hóf umræðu utan dagskrár á Alþingi um málið og sagði m.a., að augu almennings séu að opnast fyrir því hversu alvarleg staðan er í mörgum byggðum landsins. Veiðiheimildir muni sópast á hendur fárra fyrirtækja og störfin hverfa í hverju þorpinu á fætur öðru eins og dögg fyrir sólu og fólkið á eftir þeim.

Sagði Kristinn m.a. að sjávarútvegsráðherra ætti nú þegar að auka þorskveiðina um 40 þúsund tonn. Það væri eina mótvægisaðgerðin sem komi í veg fyrir hrun á landsbyggðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert