Borgin ráðalaus vegna reykklefa

Reuters

Umhverfissvið Reykjavíkurborgar hefur óskað eftir áliti frá heilbrigðisráðuneytinu um með hvaða hætti borgin geti beitt þvingunarúræðum vegna reykingaherbergis á veitinga- og skemmtistaðnum Barnum við Laugaveg.

„Heilbrigðisráðuneytið hefur verið þeirrar skoðunar að við getum beitt þvingunarúrræðum samkvæmt hollustuháttalögum, en ég hef efasemdir um að það sé lögmætt,“ segir Örn Sigurðsson, lögmaður og settur sviðsstjóri hjá umhverfissviði Reykjavíkur.

Lagabreytinga þörf

„Í löggjöfinni segir eingöngu að við eigum að hafa eftirlit með því að ekki sé reykt þar sem það er bannað. Ráðuneytið vill meina að í eftirliti felist ákveðin úrræði, en ég segi að þar sem um verulega íþyngjandi ákvarðanir er að ræða verði að vera bein lagaheimild til þess að beita þeim,“ segir Örn. „Að mínu mati þyrfti helst að koma til breyting á löggjöfinni. Heilbrigðisráðuneytið ætlast til þess að við sinnum eftirliti og framfylgjum lögunum. Þá vil ég hafa til þess almennileg tæki en ekki einhverjar hálfkveðnar vísur.“
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert