Fékk í sig rafstraum

Kerskáli álversins í Reyðarfirði.
Kerskáli álversins í Reyðarfirði. Reuters

Starfsmaður í álveri Alcoa Fjarðaáls fékk í þarfsíðustu viku í sig  rafstraum við vinnu sína í kerskála álversins. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu var maðurinn strax fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupsstað en útskrifaður þaðan daginn  eftir og talinn ómeiddur.

Helgina eftir fór hann hins vegar að finna  til óþæginda og fór til Reykjavíkur þar sem hann var lagður inn á Landspítala háskólasjúkrahús á sunnudag. Alcoa Fjarðaál segir, að verið sé að rannsaka  meiðsli hans og útlit fyrir að þau séu alvarlegri en á horfðist í fyrstu.

Maðurinn vinnur í álverinu fyrir Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar, undirverktaka Fjarðaáls. Í tilkynningu frá fyrirtækjunum segir, að maðurinn hafi verið  að vinna við mælingar í keri í álverinu þegar slysið varð en öllu jöfnu sé það álitið hættulaust starf. Ástæða slyssins hafi verið leyndur galli á frágangi rafmagns í kerskála. Búið sé að lagfæra gallann til að tryggja að slys eins og þetta endurtaki sig ekki. Vinnueftirliti ríkisins hefur verið tilkynnt um atburðinn.

Fyrirtækin segjast líta slysið alvarlegum augum enda séu öryggismál í öndvegi hjá Alcoa Fjarðaáli og markmiðið slysalaus vinnustaður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert