Ítalska verktakafyrirtækið Impregilo hefur stefnt fjármálaráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins, til endurgreiðslu oftekinna skatta vegna gerðar Kárahnjúkavirkjunar. Fram kom í fréttum Sjónvarpsins, að þetta væri stærsta endurgreiðslukrafa sem gerð hafi verið á hendur ríkinu en hún nemur rúmum 1200 miljónum króna auk vaxta.
Impregilo krefst þess að fá endurgreidd opinber gjöld, sem fyrirtækið greiddi fyrir starfsmenn tveggja starfsmannaleigna vegna vinnu við Kárahnjúka. Málið kemur til í framhaldi af dómi Hæstaréttar í september sl., en rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að starfsmannaleigurnar teldust launagreiðendur hinna útleigðu starfsmanna og Impregilo hefði því ekki borið skylda til að standa skil á staðgreiðslu vegna launa þeirra.
Garðar Valdimarsson, lögmaður Impregilo, útilokar ekki að fleiri mál verði höfðuð, s.s. vegna eftirálagðra gjalda á Impregilo vegna starfsmannanna.