Lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu eru langt frá því að vera sáttir við hagræðinguna sem framundan er hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, að sögn Sveins Ingibergs Magnússonar, formanns Landssambands lögreglumanna.
„Menn höfðu ákveðnar væntingar þegar embættin voru sameinuð en svo blasir við að menn eru að berjast í bökkum til að halda embættinu innan fjárheimilda. Ýmislegt sem menn ætluðu sér með þessum breytingum, nýjungar og þróun á starfi lögreglunnar, hefur ekki náð fram að ganga út af þessum fjárhagslegu hremmingum. Þar að auki snertir þetta tekjumöguleika manna,“ segir Sveinn. Best væri ef Alþingi samþykkti aukin framlög til lögreglu.
Eitt helsta ágreiningsmálið þessa stundina snýst um tillögu að breytingu á bakvaktakerfi rannsóknarlögreglumanna en embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og Landssambandið deila um hvort embættið geti breytt því einhliða eða hvort semja þurfi um breytingarnar.
Í stuttu máli leggur embættið til að vaktakerfinu verði breytt þannig að rannsóknarlögreglumenn sem eru á bakvakt um helgar verði á bakvakt frá föstudagskvöldi til laugardagsmorguns. Í stað þess að koma inn á stöð um morguninn og fara á venjulega vakt með viðveru á lögreglustöðinni, eins og verið hefur, myndu þeir hætta á bakvakt um morguninn og vera í fríi yfir daginn en taka aftur við bakvakt á laugardagskvöldi. Þetta endurtæki sig síðan á sunnudegi en bakvaktinni lýkur á mánudagsmorgni.