Eftir Andra Karl
„Ég ætla að leita fyrir mér í rólegheitum. Þeir verða víst að segja mér upp með sex mánaða fyrirvara,“ segir Grettir Ásmundur Hákonarson, tækjamaður hjá HB Granda á Akranesi, sem líkt og öllum starfsmönnum í landvinnslunni var sagt upp störfum nýverið. Grettir og kona hans, Kristín Ragnarsdóttir, hafa bæði unnið hjá fyrirtækinu frá því á sjöunda áratug síðustu aldar.
Grettir hóf störf hjá Haraldi Böðvarssyni árið 1964 þegar hann var tvítugur að aldri. Hann man því tímana tvenna og segist hafa grunað í hvað stefndi strax í haust. „Þegar þeir hættu við að flytja starfsemina hingað upp eftir því það var ekki raunhæft að klára allar framkvæmdir sem gera þurfti á þeim tíma sem þeir ætluðust til. Þetta voru svo miklar framkvæmdir.“
Afar þungt hljóð er í bæjarbúum, að sögn Grettis, og ekki síst starfsmönnun HB Granda sem vita ekki hvað þeirra bíður. Hann þakkar þó fyrir stöðu sína, þar sem aðeins þrjú ár eru í að hann fari á ellilífeyri, en ljóst er að margir starfsmenn hafa það töluvert verra, s.s. fólk sem þekkir vart annað en fiskvinnslu og á því erfitt með að finna sér önnur störf í bænum. Hjá Verkalýðsfélagi Akraness fengust þær upplýsingar að mikið væri um slíkt en reynt væri eftir fremsta megni að aðstoða alla við að finna ný störf.
Nú starfa um 100 manns hjá HB Granda í Reykjavík og segir Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri HB Granda, að einhverjir starfsmenn á Akranesi hafi spurt hvort þeim standi til boða að fá þar vinnu. „Það hefur verið vel tekið í það. Við höfum sagt að við séum tilbúnir að liðsinna fólki eins og við getum við að finna önnur störf. Þetta er einn af þeim þáttum.“