Verkalýðshreyfingin og Samtök atvinnulífsins eru nálægt samkomulagi um forsendur næstu kjarasamninga. Rætt er um að samningar geti gilt í allt að þrjú ár en þó þannig að eftir eitt ár verði metið hvort samningar verði framlengdir um tvö ár til viðbótar í ljósi verðbólgu og ástands efnahagslífsins.
Menn eru þó ekki á eitt sáttir hvort miða eigi við 2 ár til viðbótar eða skemmra eða lengra tímabil. Ástæðan er sú, að eftir þrjú ár yrðu samningar lausir í aðdraganda alþingiskosninga. Því er einn til skoðunar hvort samningstíminn ætti að vera 2½ ár eða 3½ ár.
Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir að vaxandi óþol sé úti í félögunum vegna þess hve hægt samningaviðræðurnar hafa gengið.
Samninganefndir Starfsgreinasambandsins og Flóafélaganna voru á formlegum samningafundi með fulltrúum SA í dag. Til næsta fundar hefur verið boðað á föstudag. Þá munu samninganefndir verslunarmanna einnig eiga fund með SA. Ekki er búist við að farið verði að ræða um launalið af alvöru fyrr en í næstu viku.