Brotamenn verða bisnessmenn

Jónas Ingi Ragnarsson.
Jónas Ingi Ragnarsson. Árvakur/Árni Sæberg

Þeir Jónas Ingi Ragnarsson, sem hlaut tveggja og hálfs árs fangelsisdóm árið 2005 fyrir aðild sína að líkfundarmálinu svokallaða, og Atli Helgason, sem dæmdur var í sextán ára fangelsi árið 2001 fyrir manndráp, hafa stofnað tvö fyrirtæki saman, Feni ehf. og Hjúp ehf.

Atli er stjórnarformaður hjá Feni en einn endurskoðanda er Sigurbjörn Sævar Grétarsson, sem hlaut fjögurra ára fangelsi árið 2004 fyrir kynferðisbrot. Tilgangur fyrirtækisins er fjármálaráðgjöf og hliðarstarfsemi innheimta.

Jónas Ingi er stjórnarformaður hjá Hjúpi en Friðjón Veigar Gunnarsson, sem dæmdur var í þriggja ára fangelsi í janúar fyrir stórfellt fíkniefnasmygl, er titlaður sem skoðunarmaður hjá fyrirtækinu. Tilgangur fyrirtækisins er fjarskiptaþjónusta og hliðarstarfsemi þess er sala á gróður- og efnavörum.

Hugmyndin varð til í fangelsinu

Á meðal þjónustu sem Hjúpur býður upp á er símsvörun fyrir fyrirtæki. Þá svara fangar á Kvíabryggju símtölum fyrir fyrirtæki. „Þessu framtaki hefur verið misjafnlega tekið. Þegar ég fór að ræða við fyrirtæki og bjóða þessa þjónustu voru sum ekki hrifin af því að nafntogaðir einstaklingar með stór afbrot á bakinu væru að svara símanum fyrir þau. En eftir að hafa komið þeim í skilning um að fangar sem sinna símsvörun verði sérvaldir og ekki þurfi að greiða föngum nema fjögur hundruð krónur á tímann, skiptu nokkur þeirra um skoðun og við náðum samningum. Sömuleiðis áttuðu fyrirtækin sig á hversu gott málefni þetta framtak er.“

Að sögn Jónasar er um að ræða tilraunaverkefni til árs, unnið í samstarfi við Fangelsismálastofnun. „Auðvitað er markmið okkar að græða peninga á þessu, en með hagsmuni fanga fyrst og fremst að leiðarljósi. Ef til vill verður samfélagslegur ávinningur af verkefninu það mikill að það verði gróðasjónarmiðinu yfirsterkara.“

Í hnotskurn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert