Einn hinna ákærðu í Pólstjörnumálinu svonefnda bar við yfirheyrslu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun að hafa verið beðinn um að „græja“ innflutning á miklu magni fíkniefna í sumar, en upp komst um málið og haldlagði lögregla efnin um borð í skútu á Fáskrúðsfirði í september. Sex eru ákærðir.
Hinir ákærðu hafa þegar játað sök í málinu að flestu leyti.
Einari Jökli Einarssyn, sem var yfirheyrður fyrstur í dómnum í morgun, er gefið að sök að hafa skipulagt innflutninginn. Hann sagði í morgun að maður sem hann vildi ekki nafngreina hefði beðið sig um að „græja þetta,“ það er að segja skipuleggja innflutninginn. Þetta hafi verið í maí í fyrra.
Fljótlega eftir að farið var að ræða hvernig flytja skyldi efnin hafi verið ákveðið að sigla á skútunni, enda kvaðst Einar hafa verið vanur skútusiglingum. Þegar hann var spurður hvort það hafi ekki verið talið áhættusamt að sigla yfir Atlantshafið á þessum árstíma sagði hann að upphaflega hafi átt að sigla fyrr, en tafir hafi orðið og því ekki farið af stað fyrr en í september.
Kvaðst Einar ekki hafa haft miklar áhyggjur því hann hefði „gert þetta áður“ og „fannst það bara gaman. Ég er bara ævintýrakall.“ Sigldi hann til Fáskrúðsfjarðar við þriðja mann og voru þeir með „tvo GPSa og einn til vara“ til að rata.
Einar greindi ennfremur frá því í morgun að hann hefði fengið annan mann til þess að pakka efnunum til flutnings. Það hafi verið tilviljun að sá tiltekni maður var fenginn til þess verks. Sagðist Einar hafa hitt hann af tilviljun í Kaupmannahöfn og hann „lá vel við höggi.“
Einar sagði að ekki hefði verið frá því gengið fullkomlega hvað hann hafi átt að fá í sinn hlut fyrir innflutninginn. Það hafi átt að vera „einhverjar prósentur“ af söluandvirði.
Einar situr í gæsluvarðhaldi, en í máli hans í morgun kom fram að síðan hann losnaði úr einangrunarvist hafi hann reynt að taka sig á, „vera edrú“ og skráð sig í skóla. Einnig hafi hann mætt á AA-fundi.