Enn vonskuveður víða

Það er vonskuveður víða um land og því víða slæm færð. Það er hálka og skafrenningur á Hellisheiði og í Þrengslum líkt og víða umSuðurland. Vonskuveður er vestan Víkur, miklar vindhviður og blint, og þar er beðið með mokstur.

Hálkublettir eru á Reykjanesbraut og á Suðurnesjum.

Á Vesturlandi er búið að opna Fróðárheiði og Svínadal, og mokstur er hafinn á Bröttubrekku. Þungfært er í Hvalfirði og eins á Skógarströnd og Útnesvegi.

Það er enn stórhríð á Klettshálsi og ófært milli Reykhólasveitar og Flókalundar. Búið er að moka Mikladal og Hálfdán en verið að opna Kleifaheiði. Þæfingsfærð er í Ísafjarðardjúpi en hálka á Steingrímsfjarðarheiði og Ströndum.

Á Norðurlandi er stórhríð á Vatnsskarði og Þverárfjalli og eins milli Blönduóss og Skagastrandar. Eins er stórhríð á Ljósavatnsskarði og á leiðinni út í Grenivík. Þá er óveður á Mývatns- og Möðrudalsöræfum og vegur ófær yfir fjöllin.

Á Austurlandi er veður enn slæmt. Ófært er yfir Fjarðarheiði, Fagradal og Oddsskarð.

Á Suðausturlandi er ekki fyrirstaða á vegum en óveður í Öræfum, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert