Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að karlmaður á sextugsaldri, Jón Pétursson, sæti 5 ára fangelsi fyrir frelsissviptingu, stórfellda líkamsárás og kynferðisbrot gagnvart sambúðarkonu sinni.
Dómurinn staðfesti einnig að Jón skuli greiða konunni 1,5 milljónir króna í bætur. Hann hefur áður verið dæmdur í 5 ára fangelsi, m.a. fyrir nauðgun, frelsissviptingu og líkamsárás gagnvart þremur konum.
Jón var ákærður fyrir að hafa nauðgað konunni tvívegis og beitt hana annarskonar ofbeldi. Fram kom í héraðsdómi, að brot Jóns gagnvart konunni hafi verið sérlega hrottafengin og langvinn og valdið henni miklum líkamlegum áverkum. Þá hafi hann notað kjötöxi og búrhníf í atlögunni. Segir dómurinn að gögn málsins beri með sér að brot Jóns hafi haft í för með sér alvarlegar líkamlegar og andlegar afleiðingar fyrir konuna.
Jón krafðist sýknu og byggði þá kröfu á því, að hann hefði orðið fyrir slysi árið 1999 sem hafi leitt til framheilaskaða. Það hafi breytt andlegu ástandi hans og hann hefði verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum.
Tveir dómkvaddir sérfróðir menn voru kvaddir til að leggja mat á þetta og í skýrslu þeirra segir, að engin merki væru um framheilaskaða eða að háttsemi Jóns yrði rakin til áverka af þeim toga. Mun líklegri skýring á hegðun hans og sjúklegri afbrýðisemi væri uppsöfnuð áhrif af langvarandi og mikilli áfengisneyslu. Var afdráttarlaust álit matsmanna að Jón væri sakhæfur og að ekkert mælti gegn því að refsing bæri árangur.