Héraðsdómur Suðurlands hefur sakfellt karlmann, sem rekur veitingastað í Vestmannaeyjum, fyrir að sýna heimildarmynd um Heimaeyjargosið í veitingastaðnum án leyfis árið 2004. Manninum var hins vegar ekki ákveðin refsing þar sem sökin var talin fyrnd.
Maðurinn var einnig ákærður fyrir að hafa sýnt aðra heimildarmynd um gosið í heimildarleysi á svipuðum tíma. Hann viðurkenndi að hafa sýnt hluta úr myndinni, sem hann sagðist hafa tekið af netinu.
Ekki var leitt í ljós fyrir dómnum, hvort tekið hefði verið fram á netsvæði bandarísks háskóla, þar sem myndin var vistuð, að fyrirvari hefði verið gerður við birtingu myndarinnar. Var maðurinn því sýknaður af ákæru fyrir þetta.