Ef ekki verður gert átak í að fjölga heimilislæknum getur svo farið að eftir 10-15 ár muni vanta allt að 80 heimilislækna á höfuðborgarsvæðinu. Ástæðan er sú að 75 heimilislæknar munu hætta störfum fyrir aldurs sakir á þessu tímabili og ekki gengur nógu hratt að mennta nýja heimilislækna.
Miðað er við að til þess að heimilislæknir geti veitt þá þjónustu sem þörf er á sé hann með 1.500 skjólstæðinga, en dæmi þekkjast um að læknar séu með allt upp í 2.300 manns.
Víða á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins hafði verið lokað fyrir skráningu á lækna, en með bréfi Guðmundar H. Einarssonar, forstjóra heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, frá 22. janúar sl. var öllum heilsugæslustöðvum gert skylt að skrá þá skjólstæðinga sem þess óskuðu.