„Hann sló til hans og sneri hann svo niður,“ segir Þórunn Ólafsdóttir, sem var á meðal farþega í strætó sem urðu vitni að hörðum deilum sem enduðu með handalögmálum á milli vagnstjóra og farþega í gærmorgun. Hún segir farþega hafa verið slegna yfir atburðinum.
Að sögn Þórunnar hófust deilurnar þegar farþeginn kom inn á Snorrabraut og hugðist greiða fyrir farið með farmiða sem ætlaður er öryrkjum. „Vagnstjórinn bað hann þá um öryrkjakort,“ segir hún og bætir við: „En hann sagðist ekki vera með það og þá hófst rifrildi sem endaði með því að farþeginn fór inn í vagninn og settist niður.“ Þórunn segir að þar með hafi deilunum ekki lokið því þegar vagninn kom á Hlemm hafi bílstjórinn farið og rekið farþegann út úr vagninum. „Farþeginn brást illa við þessu og veittist að bílstjóranum, en fór þó út úr vagninum á endanum,“ segir hún.